[Vinsamlegast fyllið út skráningarformið sem opnast þegar þrýst er hér]. 

Öll söngelsk og músíkölsk börn ásamt foreldrum eru hjartanlega velkomin í tónlistarstarfið í Ástjarnarkirkju!

Veturinn 2024-2025 verður boðið upp á tónlistarstundir fyrir börn í kirkjunni, Krakkatóna og Söngsmiðju og er starfið gjaldfrjálst.

Æfingar hefjast mánudaginn 2. september og verða vikulega á eftirfarandi tímum:

Krakkatónar fyrir 2ja-5 ára í fylgd með foreldri: mánudagar kl. 16:15-16:45.
Söngsmiðja fyrir börn í 1.-4. bekk: mánudagar kl. 15-15:50.

Boðið verður upp á ávexti 15 mínútum áður en æfingar hefjast.

Nánar um starfið:

Krakkatónar

Tónlistarnámskeið fyrir 2ja-5 ára í fylgd með foreldri/forráðamanneskju: söng- og tónlistarsamvera þar sem börnin læra sálma og ýmis önnur lög, taktskyn örvað með leikjum og hlustun og ævintýraheimur tónlistarinnar kannaður. Stundirnar hafa jákvæð áhrif á þroska barnsins, notalegt samfélag og öruggt umhverfi, foreldrar hitta aðra foreldra og börnin njóta þess að vera innan um önnur börn og fullorðna. 30 mín í senn kl. 16:15-16:45.

Söngsmiðja 

Tónlistarnámskeið fyrir 1.-4. bekk. Söng- og tónlistarsamvera þar sem börnin læra ýmis lög og sálma, taktskyn er örvað með leikjum og hlustun og ævintýraheimur tónlistarinnar kannaður. Börnin læra að vinna saman í hóp og koma fram. Starfið verður brotið upp með ýmsum hætti, m.a.:

Mánudagur 30. september: Leikir, pizza og skemmtilegheit

Mánudagur, 28. október: Náttfatadagur, bíó og popp

Svo verða ömmu- og afamessa, hrekkjavökumessa, pabbamessa og jólaball!

Báðir hópar munu koma fram í messum í Ástjarnarkirkju við nokkur sérstök tilefni.

Kórstýra/tónlistarkennari er Ásbjörg Jónsdóttir.

Verið hjartanlega velkomin og við hvetjum ykkur til að fylla út skráningarformið sem opnast með því að þrýsta hér.