Um Ástjarnarkirkju

Ástjarnarsókn er ein af yngstu sóknum landsins, stofnuð árið 2001. Fyrstu árin var allur aðbúnaður til kirkjustarfs mjög erfiður en eftir því sem tímanum hefur undið fram hefur sóknarnefnd Ástjarnarsóknar náð að byggja upp huggulegar vistarverur fyrir kirkjustarfið sem þar fer fram. Hér eftir koma nokkrir punktar úr sögu Ástjarnarkirkju:

2001

11. október: Stofnfundur sem fór fram í félagsheimili Hauka á Völlunum. Ný sókn var stofnuð sem bar vinnuheitið Vallasókn.

5. desember: Fyrsti almenni fundur Vallasóknar fór fram í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju. Sóknarnefnd skipti með sér störfum. Jónatan Garðarsson, dagskrárgerðarmaður Útvarps var kjörinn formaður sóknarnefndar.

2002

9. júní: Fyrsta Guðsþjónusta Vallasóknar var haldin í félagsheimili Hauka.

September: Nafni sóknarinnar breytt úr Vallasókn í Ástjarnarsókn. Við sama tilefni voru Ástjarnarsókn og Kálfatjarnarsókn úr Vogum sameinaðar í eitt prestakall, Tjarnaprestakall, og sr. Carlos Ferrer settur í embætti sóknarprests.

2003

Mars: Nýtt píanó tekið í notkun og nýr prédikunarstóll, hannaður af Sigþóri Aðalsteinssyni helgaður.

2004

Maí: Æskulýðsfulltrúi ráðinn í fullt starf.

Júní: Kirkjubyggingarsjóður stofnaður. Stofnframlag í kirkjubyggingarsjóð var 2.5 milljónir.

Október: Kirkjukór Ástjarnarkirkju sofnaður. Stofnfélagar 7 konur úr sókninni.

Desember: Kirkjugripir, hannaðir af Sigþóri Aðalsteinssyni teknir í notkun á aðfangadag. Gripirnir voru unnir af Trésmiðju Gylfa, Vélsmiðju Ólafs & Vélsmiðju Konráðs Jónssonar.

2005

Október: Safnaðarblað Ástjarnarsóknar gefið út í fyrsta skipti.

2006

Janúar: Ástjarnarsókn fær úthlutaðri lóð undir kirkju að Kirkjuvöllum 1.

Apríl: Bæjaryfirvöld bjóða Ástjarnarsókn tvær færanlegar kennslustofur sem húsnæði til bráðabirgða undir kirkjustarf.

2007

Sr. Bára Friðriksdóttir sett í embætti sóknarprests Tjarnaprestakalls og nýuppgerður kirkjuskáli Ástjarnarsóknar helgaður og safnaðarstarf flutt í hann úr félagsheimili Hauka.

2009

Samkeppni um merki Ástjarnarkirkju; tillaga Péturs Baldvinssonar, grafísks hönnuðar bar sigur út býtum.

2012

Sr. Kjartan Jónsson var skipaður sóknarprestur Tjarnaprestakalls, en hann hafði þá starfað við kirkjuna frá haustmánuðum 2009.

2014

Þrjár af ellefu tillögum verðlaunaðar, sem bárust í samkeppni um hönnun nýs safnaðarheimilis og umhverfisins í kring.

2015

Febrúar: Samningur undirritaður um hönnun safnaðarheimilis. Hönnuðir tillögunnar eru arkítektarnir Björn Guðbrandsson, Hulda Sigmarsdóttir, Aðalsteinn Snorrason og Egill Guðmundsson.

Ágúst: Jarðvegsframkvæmdir hófust vegna byggingar safnaðarheimilis.

Nóvember: Fyrsta skóflustunga af nýju safnaðarheimili tekin, við hátíðlega athöfn.

2017

Ágúst: Ástjarnarsókn fær nýtt og glæsilegt safnaðarheimili afhent.

Október: Ástjarnarkirkja vígð, þann 8. október af biskupi Íslands, Frú Agnesi M. Sigurðardóttur.

2018

Sr. Arnór Bjarki Blomsterberg vígður til prestsþjónustu í Tjarnaprestakalli. Þar með voru í fyrsta skipti tveir prestar skipaðir í Tjarnaprestakall. Sr. Arnór hafði áður starfað sem æskulýðsfulltrúi við Átjarnarkirkju í tvö ár, frá árinu 2016.

2019

Nýjar altarisgrindur, svokallaðar gráður (sumir segja grátur) teknar í notkun. Gráturnar hannaði og smíðaði Tómas Bergþór Þorbjörnsson.

2021

Nýr prédikunarstóll blessaður, vígður og tekinn í notkun. Prédikunarstólinn er hannaður og smíðaður af Tómasi Bergþóri Þorbjörnssyni. Við sama tækifæri var nýr kross í altarisgarðinum opinberaður og vígður.

2022

Nýr skírnarfontur blessaður og tekinn í notkun. Skírnarfonturinn er hannaður og smíðaður af Tómasi Bergþóri Þorbjörnssyni.

Sr. Kjartan Jónsson lætur af störfum og sr. Arnór Bjarki Blomsterberg tekur við sem sóknarprestur Tjarnaprestakalls. Við hlið sr. Arnórs Bjarka var sr. Bolli Pétur Bollason fastráðinn sem prestur við prestakallið. Sr. Bolli hafði áður þjónað í Tjarnaprestakalli veturinn 2019 – 2020 í námsleyfi sr. Kjartans Jónssonar.