Skírn
Í skírninni þökkum við Guði fyrir skírnarbarnið og biðjum Guð að vera nálægt barninu í öllu lífi þess. Í skírninni er barnið helgað Jesú Kristi og boðið velkomið í samfélag trúaðra. Í skírnarathöfninni sameinast viðstaddir í bæn fyrir barninu og framtíð þess. Jesús Kristur mælti fyrir um skírnina eins og fram kemur í eftirfarandi texta sem er oft nefndur skírnarskipunin:
Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og hins heilaga anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Og sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda verandar. (Matt. 28. 18-20).
Skírnarathöfnin fer þannig fram að prestur leiðir stundina en gjarnan koma fjölskyldumeðlimir að henni á einn eða annan hátt. Það gera þau til dæmis með því að fara saman með bæn, lesa ritningarlestur eða í söng.
Hjónavígsla
Kirkjuleg hjónavígsla er helgiathöfn þar sem tveir einstaklingar sem heimild hafa til hjúskapar heita hvorum öðrum ævitryggðum, að eiga-, njóta- og þiggja saman yndi lífsins, gleði og sorgir.
Mikill meirihluti brúðkaupa fer fram í kirkju. Í kirkjunni skulu í það minnsta vera viðstaddir tveir vottar (svaramenn) en oftast eru mun fleiri gestir úr nánasta hópi brúðhjóna. Heimild er fyrir því að hjónavígsluathöfn geti farið fram á heimili, veislusal eða utanhúss.
Áður en að hjónavígslu kemur verða hjónaefni að fá svokallað könnunarvottorð sem fæst hjá sýslumannsembættum.
Útför
Útför/Bálför er kirkjuleg kveðjuathöfn þar sem við kveðjum þau sem hafa fallið frá.
Munur á útför og bálför er fyrst og fremst sá að við útför er haldið með kistuna í kirkjugarðinn strax eftir athöfn þar sem kistan er lögð í gröf. Við bálför er kista ýmist látin standa í kirkjunni eftir athöfn eða að hún er borin út og lögð á búkka fyrir utan kirkjuna þar sem viðstöddum gefst kostur á að signa yfir hana. Að því loknu er kistunni ekið í líkhús þar sem hún er geymd þar til brennslu er lokið. Síðar er gjarnan sérstök athöfn í kirkjugarði þar sem duftker er jarðsett.
Kirkjuathöfnin hefst á forspili. Stundum er byrjað að leika tónlist nokkru áður en athöfn hefst, sem getur hjálpað syrgjendum að kyrra hugann. Bæn er flutt, lesnir eru ritningartextar og guðspjall úr Biblíunni og sálmar sungnir.
Í kirkjuathöfninni heldur prestur minningarræðu um þann sem lést. Prestur flytur ræðuna ýmist frá ræðupúlti eða við gafl kistunnar. Í minningarræðunni rekur presturinn æviferil hins látna í stórum dráttum í bland við boðskap kristinnar trúar um von og upprisu.
Rétt fyrir lok athafnar er moldað og presturinn segir: Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa. Athöfninni lýkur með því að kistan er borin út úr kirkjunni undir eftirspili.
Hafi ekki verið moldað í kirkju er moldað í kirkjugarðinum. Við gröfina biður prestur bænar, gjarnan faðirvor, og lýsir Drottinlegri blessun.
Aðrar athafnir
Prestar Ástjarnarkirkju eru reiðubúnir að eiga stundir með sóknarbörnum sínum jafnt í kirkju sem og annars staðar af ýmsum tilefnum, svo sem við:
Endurnýjun hjúskaparheita
Blessun húsnæðis
Minningarstundir