Útför/Bálför er kirkjuleg kveðjuathöfn þar sem við kveðjum þau sem hafa fallið frá.

Munur á útför og bálför er fyrst og fremst sá að við útför er haldið með kistuna í kirkjugarðinn strax eftir athöfn þar sem kistan er lögð í gröf. Við bálför er kista ýmist látin standa í kirkjunni eftir athöfn eða að hún er borin út og lögð á búkka fyrir utan kirkjuna þar sem viðstöddum gefst kostur á að signa yfir hana. Að því loknu er kistunni ekið í líkhús þar sem hún er geymd þar til brennslu er lokið. Síðar er gjarnan sérstök athöfn í kirkjugarði þar sem duftker er jarðsett.

Kirkjuathöfnin hefst á forspili. Stundum er byrjað að leika tónlist nokkru áður en athöfn hefst, sem getur hjálpað syrgjendum að kyrra hugann. Bæn er flutt, lesnir eru ritningartextar og guðspjall úr Biblíunni og sálmar sungnir.

Í kirkjuathöfninni heldur prestur minningarræðu um þann sem lést. Prestur flytur ræðuna ýmist frá ræðupúlti eða við gafl kistunnar. Í minningarræðunni rekur presturinn æviferil hins látna í stórum dráttum í bland við boðskap kristinnar trúar um von og upprisu.

Rétt fyrir lok athafnar er moldað og presturinn segir: Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa. Athöfninni lýkur með því að kistan er borin út úr kirkjunni undir eftirspili.

Hafi ekki verið moldað í kirkju er moldað í kirkjugarðinum. Við gröfina biður prestur bænar, gjarnan faðirvor, og lýsir Drottinlegri blessun.