„Stefnumót í hádegi“ er streymisþáttur í beinu streymi á vegum Vídalínskirkju í Garðabæ hvar fara fram fróðleg samtöl um margvíslegt það er lýtur að trú og siðferði og því að vera manneskja í heimi hér. Þáttur þessi hefur vaxið og dafnað á undanförnum þremur árum, frá því hann hófst, og áhorf eflst. Nú ætla Vídalínskirkja og Ástjarnarkirkja að leiða saman hesta sína og presta og vinna saman að þessum þætti á útmánuðum nýs árs 2023 en í febrúar næstkomandi verða sjálf Boðorðin 10 til umfjöllunar, sá kunni og aldni sáttmáli úr 2. Mósebók, er enn talar til okkar fáeinum þúsundum árum síðar og hefur mótað margt sem við búum við í dag sbr. lagaramma og siðferði. Viðmælendur hafa allir sterka sýn á umfjöllunarefnið og því verður fróðlegt að fylgjast með þessum þáttum á næstunni. Fyrsti þáttur fer í loftið þann 8. febrúar kl. 12:10-12:50 og er sem fyrr segir í beinu streymi. Þá munu siðfræðingarnir Bjarni Karlsson og Sólveig Anna Bóasdóttir ræða við sr. Jónu Hrönn Bolladóttur. Þann 15. febrúar mun Herdís Kjerúlf Þorgeirsdóttir mannréttindalögfræðingur ræða við sr. Bolla Pétur Bollason. Tvö stefnumót verða síðan í mars og þau kynnt síðar.