Sr. Kjartan Jónsson kvaddi söfnuði Tjarnaprestakalls (Ástjarnarsókn og Kálfatjarnarsókn) við guðsþjónustu á sunnudaginn var 13. nóvember eftir dygga og trúfasta þjónustu sem sóknarprestur. Kjartan hefur látið af störfum sökum aldurs og nú eru þeir þjónandi við prestakallið sr. Arnór Bjarki Blomsterberg (Nói) sóknarprestur og sr. Bolli Pétur Bollason prestur. Við guðsþjónustuna söng kvartett frá Langholtskirkju undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar organista við sömu kirkju. Kjartan prédikaði og notaði þar tækifærið og fór aðeins yfir feril sinn en hann þjónaði m.a. sem kristniboði í Afríku um árabil og þess vegna var það einkar viðeigandi að síðasta guðsþjónustan hans bæri einmitt upp á svokallaðan Kristniboðsdag sem er einn minningadaga þjóðkirkjunnar. Að lokinni guðsþjónustu var boðið til kaffisamsætis í safnaðarsalnum. Veitingar voru í boði sóknarnefnda og í umsjá Ingu Rutar Hlöðversdóttur kirkjuvarðar og húsfreyju kirkjunnar. Í kaffinu stigu fram Hermann Björn Erlingsson formaður sóknarnefndar Ástjarnarsóknar og Símon Georg Rafnsson fv. formaður sóknarnefndar Kálfatjarnarsóknar og þökkuðu þeir Kjartani vel unnin störf og þjónustu í Jesú nafni. Við óskum Kjartani og Valdísi Magnúsdóttur eiginkonu hans og fjölskyldu þeirra Guðs blessunar og velfarnaðar í lífi, starfi sem leik.
Myndir með þessari frétt tók Hermann Björn Erlingsson.