Kertaljósakvöld með tónlistarmanninum Sigurði Guðmundssyni var haldið í Ástjarnarkirkju á dögunum. Sigurður er landsmönnum að góðu kunnur fyrir fágaðan söng og músíkalskt hjarta. Sigurður er jólaröddin. Það sýndi sig líka að húsfyllir var í kirkjunni og viðstaddir nutu stundarinnar. Prestar kirkjunnar voru með svolítið spjall inn á milli laga og Inga kirkjuvörður með heitt súkkulaði og smákökur að stund lokinni. Aðgangur var öllum ókeypis og þessu kertaljósakvöldi ætlað að gefa fólki kost á að staldra við og njóta og þakka og rækta samkennd og samvitund undir góðum og ljúfum tónum. Að lokum söng Sigurður „Það snjóar“ en samt virðist stefna í rauð jól. Guð gefi ykkur öllum hugvekjandi aðventu og góð jól framundan!