Ástjarnarsókn í Hafnarfirði hyggst reisa safnaðarheimili og efnir til samkeppni um hönnun þess, auk frumhönnunar kirkju sem rísa mun síðar

Ástjarnarsókn í Hafnarfirði hefur í samvinnu við Arkitektafélag Íslands efnt til opinnar samkeppni um frumhönnun lóðar, kirkju og safnaðarheimilis að Kirkjuvöllum 1 í Hafnarfirði.

Tilgangur samkeppninnar er að fá heildarsýn á skipulag lóðar sóknarinnar.  Verkefnið er áfangaskipt.  Í þessum áfanga verður safnaðarheimili byggt, auk tengina við næsta nágrenni og lóð næst safnaðarheimilinu.  Ekki er til fjármagn til að ráðast í kirkjubygginguna sjálfa né frágang allrar lóðarinnar á næstu árum og því er ekki verið að óska eftir útfærslu kirkjubyggingar á þessu stigi.  Einungis er verið að leita eftir heildarsýn.

Veitt verða verðlaun fyrir þrjár bestu tillögurnar að mati dómnefndar, samtals að upphæð 5 milljónir króna.

Dómnefndina skipa Sigríður Sigurðardóttir arkitekt sem er formaður nefndarinnar, Erlendur Geir Arnarson vél- og iðnrekstrarfræðingur, fulltrúi sóknarnefndar og Þórhallur Sigurðsson arkitekt.

Ástjarnarsókn var stofnuð árið 2000, um leið og Grafarholtssókn og Lindasókn, til að þjóna nýjasta hverfi Hafnarfjarðar, hverfi sem áætlað er að muni telja um 15.000 manns þegar það verður fullbyggt. Nú þegar eru íbúar hverfisins orðnir um 8.000. Fyrstu árin fór starfsemi sóknarinnar fram í Haukahúsinu. Árið 2006 var söfnuðinum úthlutað lóð við Kirkjuvelli og ári síðar færði Hafnarfjarðarbær söfnuðinum tvær gamlar kennslustofur að gjöf sem komið var fyrir á framtíðarlóð kirkjunnar.

Um markmiðið með samkeppninni segir meðal annars: „Meginmarkmið sóknarnefndar með samkeppninni er að skapa heildarumgjörð utan um kirkju- og safnaðarstarf sóknarinnar.  Leitað er eftir raunhæfum og hagkvæmum hugmyndum um lóð og byggingar og tenginga þeirra innbyrðis sem uppfylla væntingar til starfseminnar. Áhersla er lögð á vandaðar, einfaldar, sveigjanlegar og hlýlegar lausnir. Verkefnið er áfangaskipt og því er mikilvægt að fyrri áfangi framkvæmdarinnar geti staðið sjálfstæður þar til síðari áfangi verði byggður og að tenging áfanga verði eðlileg. Í þessum áfanga er lögð áhersla á að reisa safnaðarheimili sem er notendavæn fjölnota bygging fyrir fjölbreytta starfsemi safnaðarins.“

Skilafrestur tillagna er til 14. nóvember 2014. Áætlað er að framkvæmdir við safnaðarheimilið hefjist á haustmánuðum 2015 og verði lokið í desember 2016. Nánari upplýsingar um samkeppnina má finna á heimasíðu Arkitektafélags Íslands www.ai.is.