Ný sálmabók þjóðkirkjunnar var tekin í notkun við guðsþjónustu 1. sunnudag í aðventu. Margrét Bóasdóttir söngmálastýra þjóðkirkjunnar ávarpaði söfnuðinn við það tækifæri. Kammerkvartettinn söng úr nýju sálmabókinni undir stjórn Erlu Rutar Káradóttur organista. Tvær fermingarstúlkur tendruðu ljós á spádómskertinu, fyrsta kertinu á aðventukransinum. Sálmabók hefur ekki verið gefin út í hálfa öld fyrir utan viðbætur við sálmabók sem hafa komið út á þeim tíma. Það var því eiginlega tími til kominn. Margir nýir sálmar prýða bókina eftir landskunna listamenn á borð við Bubba Morthens,  Magnús Þór Sigmundsson, og Aðalstein Ásberg Sigurðsson. Að lokinni guðsþjónustu var gestum boðið upp á kaffiveitingar og almenn ánægja ríkti meðal þeirra með nýju sálmabók þjóðkirkjunnar. „Syngjum Drottni nýjan söng.“ Til hamingju öll!