Matthías V. Baldursson (2)Nýr tónlistarstjóri, Matthías V. Baldursson, hefur verið ráðinn við Ástjarnarkirkju. Hann verður boðinn velkominn til starfa í guðsþjónustu á hausthátíð kirkjunnar 8. september. Hann hefur lagt stund á tónlist frá unga aldri og leikur á ýmis hljóðfæri. Á komandi vetri mun kór kirkjunnar leggja áherslu á að flytja hressa gospeltónlist ásamt fallegum lofgjörðarlögum sem margir ættu að kannast við auk hefðbundinna sálma.

Matthías V. Baldursson er fæddur í Reykjavík 1976 en hefur þó búið alla ævi í Kópavogi. Hann fór í F.í.h. og útskrifaðist úr kennaradeild skólans vorið 2006 og lauk burtfararprófi á saxófon frá sama skóla vorið 2007. Vorið 2012 útskrifaðist hann sem kirkjuorganisti frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Matthías stofnaði poppkór Íslands „Vocal project“  árið 2010 og hefur stjórnað honum síðan. Einnig starfar hann sem aðstoðarskólastjóri í tónlistarskólanum Tónsölum í Kópavogi þar sem hann hefur unnið frá 2007. Matthías hefur gefið út tvo sólódiska undir listamannsnafninu Matti sax; M-project (2007) og M-blues project (2009). Hann stjórnaði lúðrasveitinni Svaninum og Bigbandi Svansins frá 2008-2010 og hefur einnig verið duglegur að útsetja fyrir lúðrasveitir, kóra og ýmsa brasshópa í gegnum árin. Hann hefur einnig útsett fyrir einstaka tónlistarmenn og hljómsveitir, stjórnað upptökum og spilað inn á geisladiska. Síðustu ár hefur hann tekið að sér ýmsar afleysingar í Lindakirkju og einnig séð um gospelkór í Kópavogskirkju ásamt Friðriki Karlssyni gítarleikara.