Þátttaka sunnudagaskóla Ástjarnarkirkju í verkefninu Jól í skókassa (http://www.kfum.is/skokassar/) hefur það að leiðarljósi að gera öllum sem þess óska kleift að hjálpa bágstöddum börnum í Úkraínu. Í Ástjarnarkirkju er ekki nauðsynlegt að koma með fullbúna jólaskókassa inn í verkefnið, heldur það sem hver og einn hefur að gefa, jafnvel þó það sé bara einn hlutur, eða margir hlutir af sömu gerð. Við bætum hvert annað upp og hjálpumst að við fylla kassana og gera þá sem veglegasta. En fyrsta skrefið er að íhuga eftirfarandi:

 

  • Langar þig að gefa bágstöddu barni gjöf en hefur ekki bolmagn til að fylla skókassa ?
  • Áttu eða geturðu útvegað ný eða mjög vel með farin barnaföt ?
  • Liggja ný eða mjög vel með farin leikföng inni í geymslu eða inni í skáp ?
  • Áttu ónotað skóladót svo sem reglustikur, blýanta, liti eða stílabækur ?
  • Ertu dugleg(ur) að prjóna eða þekkir einhvern sem er iðinn við prjónana og til í að framleiða sokka, húfur, vettlinga eða trefla ?
  • Vinnur þú eða einhver sem þú þekkir í verslun sem er tilbúin að láta eitthvað af hendi rakna?
  • Vinnur þú hjá eða þekkir til í fyrirtæki sem að notar auglýsingavörur í þeim flokkum sem við erum að leita að, hugsanlega afgangs vörur með úreltum merkjum og lógóum?
  • Fórstu aðeins fram úr þér síðast þegar þú varst í fríhöfninni og átt umframbirgðir af tyggjói og sleikjó sem að þú og fjölskyldan hefur ekki gott af að klára?
  • Ertu handlagin(n) og treystir þér til að pakka skókössum inn í jólapappír ?
  • Langar þig að styrkja verkefnið með fjárframlagi ?

 

Hafir þú svarað einhverri spurningu játandi þá geturðu orðið að liði og við bjóðum þér að koma á jólaskókassadag Ástjarnarkirkju laugardaginn 1.nóvember n.k. Þá verður opið hús í kirkjunni milli kl. 11:00 og 15:00 og áhugsömum boðið að líta við með framlög til verkefnisins. Vinna við Jól í skókassa hefur ávallt fyllt kirkjuna af gleði og tilhugsunin um börnin sem afrakstur verkefnisins mun gleðja hefur verið afskaplega hvetjandi. Því var það ólýsanleg ánægja að finna mynd á síðu verkefnisins  af börnum sem eru að taka á móti einum af „Ástjarnarkirkju“ kössunum, sjá myndina hér fyrir ofan. Við höldum ótrauð áfram með þinni hjálp og hlökkum til að sjá sem flesta á jólaskókassadaginn næsta laugardag.