Fimmtudagurinn 11. desember var mikill gleðidagur í Ástjarnarkirkju og verður lengi í minnum hafður.Þá voru þrjár af 11 tillögum sem bárust í samkeppni um hönnun safnaðarheimilis fyrir söfnuðinn og umhverfis þess verðlaunaðar. Bæjarstjóri Hafnarfjarðar og fulltrúar úr bæjarstjórn og frá ýmsum stofnunum bæjarins voru viðstaddir ásamt prestum í kirkjum Hafnarfjarðar, vinningshöfum, sóknarnefnd Ástjarnarkirkju, byggingarnefnd, dómnefnd og starfsfólki. Mikil eftirvænting var í loftinu að fá að berja vinningstillögurnar augum.
Tímamót
Dagurinn markar mikil tímamót í sögu safnaðarins sem var stofnaður árið 2001. Alla tíð hefur hann búið við ófullnægjandi húsnæði. Núverandi húsnæði hans, tvær gamlar kennslustofur sem Hafnarfjarðarbær gaf og gerðar voru upp árið 2007, er löngu orðið allt of lítið og hamlar starfsemi hans. Íbúafjöldi sóknarinnar er um 8.000 manns en samkvæmt áætlunum bæjaryfirvalda er reiknað með að íbúafjöldinn eigi eftir að stóraukast á næstu árum svo að hún verði á meðal þriggja stærstu sókna landsins. Því er mikilvægt að bæta úr brýnni húsnæðisþörf safnaðarins sem fyrst.
Vinningstillögurnar
Arkitektastofan Arkís arkitektar ehf hlaut fyrstu verðlaun. Hönnuðir tillögunnar eru Björn Guðbrandsson, arkitekt FAÍ, Hulda Sigmarsdóttir, arkitekt FAÍ, Aðalsteinn Snorrason arkitekt FAÍ og Egill Guðmundsson arkitekt FAÍ. Í áliti dómnefndar segir að tillöguhöfundum hafi „tekist að leysa forsendur samkeppnislýsingar í einfaldri og listrænniheild. Heildarskipulag safnaðarheimilis er einstaklega gott. Þá er skipulag og áfangaskipting vegna fyrirhugaðrar byggingar kirkju að sama skapi til fyrirmyndar. … Byggingin ber yfir sér einfaldleika í formi og efnisvali sem gefur fyrirheit um hlýlega umgjörð um starfsemi safnaðarins, auk þess að vera hagkvæm í byggingu, rekstri og viðhaldi.“ Byggingarnefnd lagði mikla áherslu á notagildi safnaðarheimilisins í samkeppnislýsingu og var eitt af lykilatriðum hennar að í safnaðarheimilinu sé fjölnotasalur sem nota má við Guðsþjónustur þar til kirkja rís og að hann nýtist jafnframt til stækkunar á kirkjuskipi framtíðarkirkju við stærri athafnir. Arkitektastofan Kurtogpí hlaut önnur verðlaun en hönnuðir hennar eru Ásmundur Hrafn Sturluson, arkitekt FAÍ og Steinþór Kári Kárason, arkitekt FAÍ. Þriðju verðlaun hlaut Erum-Arkídeaarkitektar. Hönnuðir tillögunnar eru Helgi Bergmann Sigurðsson, arkitekt FAÍ og Ragnar Ólafsson, arkitekt FAÍ. Samkeppnislýsing var birt 12. september 2014 og skilafrestur var til 14. nóvember 2014. Í janúar verður opnuð sýning á öllum tillögum sem bárust í keppnina.
Vinna hefst eftir áramót
Áætlað er hefja hönnun safnaðarheimilisins fljótlega eftir áramót og vinna að frekari fjármögnun verksins en söfnuðurinn hefur náð að safna góðri upphæði í byggingarsjóð á undanförnum árum. Miðað er við að nettóstærð hússins (nýtanlegt rými án veggja) verði 547 fermetrar og kirkju, sem síðar verður byggð, 540 fermetrar nettó. Vonir standa til að byggingaframkvæmdir geti hafist á æsta ári og að starfsemi geti hafist í hinni nýju byggingu í lok árs 2016.
5.febrúar 2015
Tímamót urðu í sögu Ástjarnarsóknar fimmtudaginn 5. febrúar, þegar Geir Jónsson formaður sóknarnefndar og Þorvarður Lárus Björgvinsson framkvæmdastjóri Arkís arkitekta, undirrituðu samning um hönnun safnaðarheimlis. Viðstaddir voru fulltrúar byggingarnefndar, sóknarprestur og Björn Guðbrandsson hönnuður vinningstillögu hönnunarsamkeppni kirkjunnar. Á myndinni handsala Geir formaður og Björn hönnuður samninginn með Þorvarð
24.ágúst 2015 – Jarðvegsframkvæmdir hefjast
15.nóvember 2015 – Fyrsta skóflustungan tekin