Mikil gróska er í starfi eldri borgara í Ástjarnarkirkju. Veglegur og vinalegur hópur mætir vikulega í kirkjuna á miðvikudögum kl. 13:30-15:30. Um er að ræða fremur sjálfbært samfélag sem sýpur m.a. á svartbaunaseyði og borðar bakkelsi sem bæði Inga kirkjuvörður útvegar og leggur á borð og jafnframt þátttakendur sjálfir. Umræður snúast einkum um landsins gagn og nauðsynjar og þar fléttast einnig inn í fréttir af vinum og vandamönnum, auk frétta úr dagsins önn og kirkjustarfinu. Iðulega mætir góður gestur til að fræða og gleðja samfélagið. Á þessari haustönn hefur það fengið að heyra um Halaveðrið mikla, erfðamál, sögu Krísuvíkurkirkju, Kvikmyndasafn Íslands, hið þjóðlega tímarit Heima er bezt, og um rithöfundinn rómaða og þingkonuna Guðrúnu Helgadóttur. Gestirnir hafa jafnan verið til mikils sóma og prúðmennska einkennt framgöngu þeirra. Framundan er síðan jólaljósaferð um höfuðborgarsvæðið og jólahlaðborð við upphaf aðventu. Það er alltaf margt í deiglunni og ávallt tekið hlýlega á móti nýjum þátttakendum. Sjáumst kát og hress á miðvikudögum:)