Það var einu orði sagt jólalegt þegar á fimmta hundrað skólabarna í Ástjarnarsókn mætti í Ástjarnarkirkju dagana 3. 10. og 18. desember. Þau komu glaðleg sem stjörnur í skammdegi með rauðar skotthúfur, íklædd jólapeysum, og með eplakinnar, ásamt kennurum sínum og áttu fræðslustund og samfélag með prestum kirkjunnar, organista og kirkjuverði.

Börnin fengu fræðslu um aðventukrans, Jesúbarnið í Betlehem, og svo fór fram vekjandi jólalagagetraun Ástjarnarkirkju þar sem Kári organisti lagði fyrir viðstadda þrautir. Það var með eindæmum ánægjulegt að heyra hvað börnin leystu vel úr þeim þar sem organistinn var oft og tíðum með óljósar útgáfur af annars mjög þekktum jólalögum. Þá var sungið og trallað um hátíð ljóss og friðar og á leiðinni út kvaddi Inga kirkjuvörður þau með mandarínum og hjörtun slógu í takt þegar við sögðum öll í kór gleðileg jól!

Heimsóknir sem þessar auka þekkan svip aðventutímans og óskandi að þær festist í sessi sem aðventuhefð kirkjunnar um ókomin ár.

Njótum aðventu og jóla!