Bleik messa fór fram í Ástjarnarkirkju sunnudaginn 30. október síðastliðinn. Messan var til styrkar bleiku átaki krabbameinsfélagsins í október. Kross í altarisgarði var baðaður bleikri birtu og ýmsir mættu til kirkjunnar í bleiku, auk þess sem bleikir sokkar frá krabbameinsfélaginu voru falir og seldir eftir messu málefninu til stuðnings. Bragi Guðmundsson steig í stólinn og flutti viðstöddum reynslusögu, en hann þekkir sjúkdóminn á eigin skinni og saga hans full af von og þrótti, því Bragi hefur hlotið bót sinna meina. Margar slíkar sögur eru sem betur fer til og virka iðulega sem ljós inn í rökkur. Ljúfa tóna fluttu þau Sara Blandon söngkona og Árni Freyr Jónsson gítarleikari. Flutningurinn var afbragð. Þar var um að ræða lög sem söngdívan Eva Cassidy gerði á sínum tíma heiminum kunn. Krabbameinssjúkdómurinn heltók Evu. Góður rómur var gerður að stundinni og ljúffeng marsipanterta, ásamt öðru bakkelsi, jók á þekkan svip andrúmsloftsins og bragðkirtla og kætti viðstadda til muna. Bleikar messur hafa fest rætur í helgihaldi kirkjunnar og er það vel, því málefnið er þarft og verðugt. Lifi bleikar messur!

Myndir með frétt tók Hermann Björn Erlingsson formaður sóknarnefndar Ástjarnarsóknar.