Safnaðarstarf- og breytingar í Ástjarnarsókn

Þegar líður að hausti fara kirkjur landsins að huga að safnaðarstarfi vetrarins. Það er óhætt að segja að talsverðra breytinga sé að vænta í safnaðarstarfi Ástjarnarsóknar þennan veturinn, en fyrst ber þó að geta nýs starfsfólks.

Nýtt starfsfólk í Ástjarnarkirkju

Í febrúarlok þessa árs tók nýr kirkjuvörður til starfa, Inga Rut Hlöðversdóttir. Inga hefur umsjón með kirkjuhúsinu, heldur utan um bókanir, veisluhöld og annað sem til fellur í starfi safnaðarins. Sr. Bolli Pétur Bollason verður prestur í Ástjarnarkirkju í afleysingum, á meðan Sr. Kjartan Jónsson sóknarprestur er í námsleyfi. Nýr organisti hefur einnig verið ráðinn, Kári Allansson. Kári mun stjórna öllu er lýtur að tónlistarstarfi Tjarnaprestakalls og koma að öðru sem til fellur í þeirri þróunarvinnu sem er framundan er í sókninni á sviði helgihalds og almenns safnaðarstarfs.

Breytingar framundan í starfi Ástjarnarkirkju

Eins og áður sagði er breytinga að vænta í safnaðarstarfi kirkjunnar, ekki sýst hvað snýr að helgihaldi og messuformi. Það sem helst ber að nefna er þetta:

Messutími verður á sunnudögum klukkan 17:00 í stað 11:00 eins og áður var.

Heitur matur verður fyrir kirkjugesti eftir messu að kostnaðarlausu. Karfa mun liggja á borði sem tekur við frjálsum framlögum, ef kirkjugestir vilja gefa í matarsjóð til að styrkja þetta verkefni. Er þetta fyrirkomulag (að hafa heitan mat eftir messu) bæði guðfræðilega mikilvægt sem og samfélagslega mikilvægt, fyrir öll sem á þurfa að halda.

Breyting á messuforminu: í vetur verður breyting á því hefðbundna messuformi sem við almennt þekkjum í kirkjum landsins. Við ætlum að leggja áherslu á að messan/guðsþjónustan sé fjölskyldustund. Messuliðir sem höfða til allra aldurshópa; sögur, bænir, prédikun og síðast en ekki síst söngur. Það er draumur okkar í Ástjarnarkirkju að söfnuðurinn sé virkur í messum og guðsþjónustum. Því munum við leggja upp með almennan safnaðarsöng í vetur, sem stjórnað verður af organista kirkjunnar. Í einni messu í mánuði kemur barnakór Ástjarnarkirkju inn í helgihaldið og leiðir samsöng safnaðarins.

Barnafólk athugið: litabækur, bílateppi og leikföng verða aftast í kirkjusalnum ef börn ókyrrast og vilja fara á flakk.

Næsta messa í Ástjarnarkirkju verður sunnudaginn 25. ágúst 2019 klukkan 17:00. Verið öll hjartanlega velkomin í fjölskyldustund og sameiginlegan heitan kvöldverð á eftir. Við hlökkum til að sjá ykkur sem allra flest í allan vetur.

Starfsfólk Ástjarnarkirkju.

Comments are closed.